-
Gott er að búa til hamborgara úr hakkinu áður en það er fryst, þá eru þeir tilbúnir beint á pönnuna eða á grillið.
-
Best er að geyma steikurnar í ísskáp í 10-12 daga áður en þær eru frystar. Þá eru þær meyrar og tilbúnar þegar á að elda þær.
-
Það er líka hægt taka nautasteikurnar úr frysti 6-7 dögum áður en þær eru eldaðar og láta þær þiðna í ísskáp. Við það halda þær áfram að meyrna og verða mjúkar og safaríkar við eldun.
-
Það er best að elda nautakjöt þegar það er við stofuhita. Þess vegna er gott að taka það út úr ísskápnum minnst tveimur tímum áður en það er eldað.
-
Við mælum með að steikurnar flatsteik og klumpur séu steiktar í heilu lagi. Fyrst brúnaðar á pönnu og síðan steiktar í ofni. Einnig er gott að grilla þær. Þá er gott að snögg steikja þær á háum hita allan hringinn og síðan slökkva fyrir hitann á öðrum helmingi grillsins og leggja steikina þar. Miða má við að 1 kg af kjöti þurfi ca. 30 mín steikingu eða þangað til kjötmælirinn sýnir 52-55°C.
-
Þegar nautasteikur eru steiktar í heilu lagi er best að láta þær hvíla í ca. 10-15 mínútur eftir steikingu, áður en þær eru skornar. Gott er að leggja yfir þær álpappír og viskustykki á meðan beðið er.
-
Það er ekki sama hvernig kjötið er skorið. Það á alltaf að skera nautakjöt þvert á vöðvann þ.e. vöðvaþræðina. Í flestum steikum liggja vöðvaþræðirnir langsum eftir allri steikinni Ávallt skal fylgjast vel með hvernig vöðvaþræðirnir liggja.
-
Við mælum með að ef nota á krydd, að krydda kjötið eftir steikingu. Salt og pipar eru yfirleitt besta kryddið.